Fram, fram fylking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Tveir leikendur eru valdir til að vera ræningjar. Áður en leikurinn hefst ákveða þeir hvor sitt einkenni, annar getur til dæmis verið gull og hinn silfur. Dæmi um aðra flokka: Epli og appelsínur, sjór og himinn, bók eða bíó. Aðrir leikendur mega ekki vita hvor velur hvað.

Ræningjarnir haldast í hendur með hendur hátt á lofti og mynda þannig „hlið“. Aðrir leikendur halda í axlir hver á öðrum og ganga í þéttri halarófu undir hliðið. Þau sem eru í halarófunni syngja:


Fram fram fylking!
Forðum okkur hættu frá,
því ræningjar oss vilja ráðast á.
Sýnum nú hug,
djörfung og dug!
Vaki, vaki, vaskir menn,
voða bera að höndum,
sá er okkar síðast fer,
skal sveipaður í böndum.

Þegar síðustu hendingarnar eru sungnar láta ræningjarnir hendurnar síga og þegar síðasta línan er sungin reyna þeir að fanga þann sem er að fara í gegnum hliðið. Ræningjarnir mega ekki sleppa handtakinu en sá sem er fangaður má reyna að komast burt.

Fanginn á síðan að hvísla að ræningjunum hvort hann velji gull eða silfur, og stillir sér svo fyrir aftan manneskjuna sem tilheyrir þeim flokki sem hann valdi. Leikurinn heldur svo áfram þar til allir leikendur hafa verið fangaðir og stillt sér upp fyrir aftan ræningjana út frá þeim flokkum sem þeir völdu. Þá hefst reiptog milli hópanna tveggja og vinnur það lið sem sigrar reiptogið. Ef ekkert reipi er til staðar geta leikendur gripið um mitti þess sem stendur fyrir framan og togað í ræningjana sem haldast enn í hendur. Sá hópur sem fellur til jarðar tapar en sá sem stendur uppi eftir vinnur.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.